Forysta & samskipti
Í hlaðvarpinu er fjallað um ýmsa þætti sem falla undir forystu og samskipti , eins og farsæla forystu og stjórnun, árangursrík samskipti, samningatækni, lausn ágreinings og vandamála o.fl. Sigurður fær til sín fólk sem er að fást við ólíka hluti og deilir með okkur mismunandi þekkingu og reynslu. Umsjón: Sigurður Ragnarsson, forseti Viðskiptadeildar Háskólans á Akureyri og stjórnenda- og forystuþjálfari.
Episodes

Tuesday Mar 04, 2025
Tuesday Mar 04, 2025
Forysta og samskipti: Hvað er gervigreind og hvers vegna þurfum við að tileinka okkur hana? - Gervigreindin mælir með að þú missir ekki af þessum þætti…Nýr þáttur af hlaðvarpinu Forysta og samskipti er kominn í loftið en umsjónarmaður er Sigurður Ragnarsson, forseti Viðskiptadeildar Háskólans á Akureyri (HA) og stjórnenda- og forystuþjálfari. Gestir Sigurðar í þættinum eru Dr. Auðbjörg Björnsdóttir, forstöðumaður Kennslu- og upplýsingatæknimiðstöðvar HA, og Magnús Smári Smárason, verkefnastjóri gervigreindar við HA og einn fremsti sérfræðingur landsins í gervigreind. Í þættinum er farið út um víðan völl gervigreindar en sérstakur fókus er á notkun hennar og hvernig hún getur nýst stjórnendum og forystufólki. Komið er inn á þætti er varða mannleg samskipti, tilfinningagreind, siðferði og hvernig gervigreind getur hjálpað við að taka betri ákvarðanir. Einnig er innleiðing gervigreindar rædd og hvernig hún getur gagnast til að bæta samskipti á vinnustöðum.Komið er inn á alls konar pælingar, eins og stafræna föstu, hreinskilni gervigreindar, sem og hver framtíðarþróunin verður. Ef þú hefur áhuga á gervigreind þá mælir gervigreindin með að þú missir ekki af þessum þætti!

Wednesday Jan 08, 2025
Wednesday Jan 08, 2025
Gestur Sigurðar í þættinum er Rebekka Kristín Garðarsdóttir, forstöðukona og verkefnastjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Wise. Rebekka Kristín hefur yfir 20 ára reynslu sem stjórnandi og forystumanneskja. Hún starfar nú hjá Wise en starfaði meðal annars áður í Hong Kong sem stjórnandi hjá LinkedIn og Microsoft, auk þess sem hún stofnaði og rak fyrirtæki þar ytra. Margt kemur til tals, eins og munurinn á að vera stjórnandi og leiðtogi auk þess sem rætt er um verkefnastjórnun. Einnig segir Rebekka Kristín frá tíma sínum hjá LinkedIn og Microsoft og lýsir þar til dæmis einstöku starfsumhverfi þar sem afar mikil krafa var gerð á árangur samhliða að hugað var að vellíðan starfsfólks. Rebekka Kristín ræðir einnig muninn á að vera forystumanneskja í Kína og á Íslandi.

Tuesday Nov 26, 2024
Tuesday Nov 26, 2024
Gestur Sigurðar í þættinum er Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Viðskiptadeild Háskólans á Akureyri. Grétar Þór hefur viðamikla reynslu sem stjórnandi, fræðimaður og kennari. Hann er t.d. fyrrum forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri og hefur sinnt stjórnmálaskýringum í fjölmiðlum í áraraðir.Farið er yfir alþingiskosningarnar framundan og sérstaklega út frá forystu og hvernig forystan birtist með ólíkum hætti hjá flokkum og frambjóðendum. Einnig er komið inná samskipti og kynningar í tengslum við kosningarnar. Að lokum er aðeins farið yfir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og m.a. rætt hvers vegna Trump hafi sigrað.

Thursday Sep 19, 2024
Thursday Sep 19, 2024
Kjartan er hafsjór af reynslu og fróðleik og ræðir og fræðir okkur um allskonar hluti á sviði nýsköpunar og frumkvöðlamennsku, þ.á.m. félagslega nýsköpun (e. Social innovation) og hvað einkennir afburða frumkvöðla. Í tengslum við samskipti og nýsköpunar- og frumkvöðlahugsun undirstrikar hann meðal annars mikilvægi þess að stjórnendur tali við starfsfólkið sitt. Einnig er komið inná fortíð Kjartans sem er margþætt en hefur nýst honum vel í leik og starfi. Hann hefur starfað fyrir mörg fyrirtæki sem og kennt og starfað við fleiri háskóla, þ.á.m. Háskólann í Reykjavík og University of Twente í Hollandi. Einnig segir Kjartan okkur frá samstarfinu við Drift EA, sem er sjálfstætt og óhagnaðardrifið félag um nýsköpun og frumkvöðlastarf sem nýlega varð að veruleika.

Tuesday Jun 18, 2024
Tuesday Jun 18, 2024
Gestur Sigurðar í þættinum er Eyjólfur Guðmundsson fráfarandi rektor Háskólans á Akureyri.
Eyjólfur hefur verið rektor HA síðustu tíu ár. Áður var hann sviðsstjóri greiningar og aðalhagfræðingur hjá tölvuleikjafyrirtækinu CCP; og þar áður forseti viðskipta- og raunvísindadeildar HA. Eyjólfur segir okkur frá ýmsum þáttum í starfi sínu, til dæmis hvað skiptir mestu máli í tengslum við að leiða og taka ákvarðanir. Hann lýsir einnig þremur megin áskorunum í starfi sínu sem rektor: Í fyrsta lagi eru það samskiptin við stjórnvöld; í öðru lagi stjórnun í akademísku samfélagi; og í þriðja lagi, sú áskorun að standa sig í hinu alþjóðlega samhengi. Margt fleira kemur til tals eins og möguleg sameining við Háskólann á Bifröst og háskólaumhverfi framtíðarinnar sem hann telur verða mikið breytt miðað við í dag, það verði mun hraðara og dýnamískra. Eyjólfur tengir meðal annars gervigreindina við þessar breytingar.
Í tengslum við umræðu um forystu og stjórnun tekur Eyjólfur dæmi um marga leiðtoga, eins og Elon Musk, Steve Jobs, Angelu Merkel, Winston Churchill og fleiri. Um áskorun í starfi varðandi samskipti við stjórnvöld segir Eyjólfur meðal annars: ,,Svo ég orði það pent, þá erum við alltaf í baráttu við að fá viðurkenningu, eiginlega viðurkenningu þess að við séum stofnun þess virði fyrir suðurvaldið, ég kalla það suðurvaldið, að veita okkur athygli. Það getur verið mjög mismunandi eftir ráðherrum, það getur verið mjög mismunandi eftir tímabilum; hefur stórbatnað á þessum 10 árum en á sama tíma er það svolítið ennþá fast í sama fari.“ Einnig má nefna að Eyjólfur lýsir því hvernig, að hans mati, jafningjastjórnun gengur ekki upp í háskólaumhverfinu.

Tuesday Apr 30, 2024
Tuesday Apr 30, 2024
Gestur Sigurðar í þessum þætti er Grétar Þór Eyþórsson, forseti Viðskiptadeildar HA og prófessor í stjórnmálafræði. Grétar Þór hefur leitt starf Viðskiptadeildar HA síðustu fjögur ár og hefur viðamikla reynslu sem stjórnandi, fræðimaður og kennari. Hann er t.d. fyrrum forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri og hefur sinnt stjórnmálaskýringum í fjölmiðlum í áraraðir. Grétar Þór hefur því mikla reynslu þegar kemur að forsetakosningum á Íslandi og þekkir vel sögu þeirra og hlutverk forsetans. Hann ræðir m.a. hvað er frábrugðið við þessar kosningar í samanburði við fyrri kosningar. Farið er yfir hóp þeirra frambjóðenda sem virðast helst koma til greina og velt fyrir sér stöðu þeirra og möguleikum. Margt fleira kemur til tals eins og hvað einkennir góðan forseta og hvernig baráttan mögulega þróast fram að kosningum. Einnig er leitað svara við spurningum eins og ,,hvers vegna er mikilvægt fyrir forseta að hlusta?“ og ,,hvaða forystuhæfileikar skipta máli?“

Wednesday Jan 31, 2024
Wednesday Jan 31, 2024
Gestur Sigurðar í þessum þætti er Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri. Hildigunnur hefur viðamikla reynslu sem stjórnandi og forystumanneskja og er m.a. fyrrum framkvæmdastjóri á Sjúkrahúsinu á Akureyri og fyrrum skólastjóri Sjúkraflutningaskólans auk þess sem hún hefur verið formaður Landssambands heilbrigðisstofnana og setið í stjórnum fagfélaga hérlendis sem erlendis. Hún starfaði einnig lengi sem lektor við Háskólann á Akureyri. Hildigunnur segir okkur frá ýmsum þáttum í starfi sínu á sviði forystu og samskipta, og ræðir m.a. hvernig má byggja upp öflug teymi. Hún kemur líka inná mikilvægi þess að nota mýkt við að leiða og hvað felst í leiðtogafærni. Margt fleira kemur til tals eins og mikilvægi þess að hafa bæði trú á sjálfum sér og öðrum og að deila ábyrgð til þess að valdefla fólk.

Wednesday Dec 20, 2023
Wednesday Dec 20, 2023
Fyrsti gestur Sigurðar er Sirrý Arnardóttir. Hún er þekkt fyrir ýmis störf, þ.á.m. úr fjölmiðlum en og hún er líka kennari, sérfræðingur og ráðgjafi í öllu sem tengist betri tjáningu. Hún er einnig rithöfundur og nýjasta bókin hennar heitir einmitt Betri tjáning: Örugg framkoma við öll tækifæri. Sirrý segir okkur m.a. frá bókinni og kemur inn á ýmsa aðra þætti er tengjast betri tjáningu og öflugri samskiptum almennt. Sirrý sýnir okkur ofan í ,,verkfærakistuna sína” og ýmislegt er rætt eins og samskipti í rafheimum, að kunna að setja mörk og hvað samskiptafærni snýst raunverulega um.